Móttaka hælisleitenda og náttúruhamfarir
Þjóðin stendur nú frammi fyrir einni stærstu áskorun sem hún hefur séð í áratugi. Náttúruhamfarir í Grindavík og áframhaldandi óvissa tengd þeim hafa orsakað fordæmalausar aðstæður þar sem 3.700 manns, eða 1% þjóðarinnar, þurfa nú að finna sér nýtt heimili á nýjum stað.
Í þessu samhengi verður að taka heiðarlega umræðu um þann fjölda erlendra ríkisborgara sem koma til landsins í hverjum mánuði og fá hér endurgjaldslaust húsnæði, heilbrigðisþjónustu, skólaþjónustu, félagsþjónustu og framfærslustyrk. Undanfarna mánuði hafa tíu manns komið daglega til landsins og óskað eftir alþjóðlegri vernd. Þetta gera 300 manns á mánuði, eða sem nemur íbúafjölda Grindavíkur á ári. Álagið sem þessu fylgir er mikið, einkum og sér í lagi á sveitarfélögin á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu. Öllu þessu getum við ekki sinnt eins og ekkert hafi í skorist. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa lýst því yfir að þau séu komin að þolmörkum í móttöku hælisleitenda. Þessi sömu sveitarfélög standa nú frammi fyrir enn frekari áskorunum, að taka á móti Grindvíkingum sem nauðbeygðir þurftu að yfirgefa heimili sín í skyndi.
Neyðarástand vegna náttúruhamfara
Hælisleitendum sem hingað koma þarf að tryggja húsnæði og þeim þarf að veita þjónustu. Segja má að Grindvíkingar séu þó verr settir þar sem þeir fá ekki endurgjaldslaust húsnæði og þurfa að greiða af húsnæði sem þeir geta ekki búið í. Beinn kostnaður ríkissjóðs vegna hælisleitenda nemur rúmum milljarði króna á mánuði. Þá er ekki talinn með óbeinn kostnaður eins og heilbrigðisþjónusta. Ísland er fámennasta þjóð Evrópu en tekur hlutfallslega á móti flestum hælisleitendum í álfunni. Við tökum til að mynda á móti fleiri Palestínumönnum en öll Norðurlöndin til samans. Þegar kemur að hælisleitendum frá Venesúela erum við í fjórða sæti meðal 27 landa Evrópusambandsins, þar sem 450 milljónir manna búa. Við tökum á móti margfalt fleiri heyrnarlausum hælisleitendum en þjóðir ESB. Á sama tíma stendur ríkissjóður frammi fyrir verulegum útgjöldum vegna náttúruhamfara. Á Íslandi ríkir neyðarástand, óvissa um frekari hamfarir og húsnæðisskortur.
Loka ber landinu tímabundið fyrir hælisleitendum
Undir þessum kringumstæðum þarf að forgangsraða verkefnum og fjármunum ríkissjóðs. Taka ber þá ákvörðun strax að loka landinu tímabundið fyrir hælisleitendum. Taka tímabundið upp virkt landamæraeftirlit og vegabréfaskyldu, eins og heimilt er samkvæmt Schengen-samstarfinu. Ísland er fullvalda þjóð og hefur allan rétt til að taka slíka ákvörðun á grundvelli neyðarréttar. Við verðum að snúa okkur að okkar innri málum. Okkur ber fyrst og fremst skylda til að hlúa að eigin þjóð á erfiðum tímum. Neyðarástand kallar á neyðarráðstafanir. Ráðstafanir þar sem Grindvíkingar sæta forgangi.
Birgir Þórarinsson
Höfundur er alþingismaður.